Meistarabréf
Af hverju er ég nú að skrifa um þá snillinga sem hafa lokið iðnnámi og krumpað einhvern veginn á sig meistaratitli? Þegar þessum pistli er lokið ætti að skýrast af hverju ég lýsi yfir fullkomnu vantrausti á þessum pappír, og hvað hann táknar fyrir mér eftir vandlega skoðun á þessari stétt manna. Þegar menn á sínum tíma, það er þegar ég var að vaxa úr grasi, var það lenska að ef að eitthvert afkvæmið í fjölskyldunni sýndi merki varanlegrar heimsku, þá var haft samband við einhvern ættingja sem átti iðnfyrirtæki, og sauðarhausinn settur í iðnnám. Í framhaldi af því fór hann í iðnskólann lærði eitthvað smotterí og fékk að því loknu afhent "sveinsbréf". Enn um sinn fokkaðu hlandhausarnir nokkur ár hjá "frænda" of að liðnum fjórum árum þá beið þeirra "MEISTARABRÉF" án þess að þeir þyrftu nokkru sinni að sýna fram á hæfni sína til að valda svo virðulegum titli. Margir af þessum afleggjurum iðnvæðingarinnar, stofnuðu svo sín eigin fyrirtæki og tóku sér lærlinga til að halda handvömminni gangandi. sú óþægilega staðreynd að þessir menn kunnu lítið sem ekkert í þeirri iðn sem þeir stóðu fyrir varð þeim samt ekki fjötur um fót við að útskrifa fleiri fúskara. því að þeir úr hópnum sem höfðu verið duglegir og sett fyrirtæki sín fljótlega á hausinn, skörtuðu nú titlum embættismanna í röðum eftirlitsmanna, byggingarfulltrúa, rannsóknargarpa og síðast en ekki síst kennara og prófdómara, og fjandakornið ætli þeir fari að fella nema frá Gvendi fúsk bekkjarbróðir sínum. Þetta kemur einna verst niður á þeim sem þurfa að kaupa þjónustu þessara búðinga, og eru samtöl eins og það sem hér fer á eftir nokkuð algeng, allavega hef ég upplifað eitthvað svipað.
Jæja pípari góður er stíflan mín nú loksins farin?
Píparinn: já og rúmlega það! 7000 kr. takk.
Ég: En billegt en hvað áttu við með rúmlega farin?
Píparinn: Sko það er bæði farin stíflan, og botninn úr skápnum, bless og takk.
Og þar með var hann horfinn. Ég reyndi að hafa samband við hann eftir þetta atvik en það svaraði aldrei neinn. Ég átti því láni að fagna að blokkin sem við bjuggum í, í Fífumóanum í Njarðvík, gerði verksamning við fyrirtæki innan úr Reykjavík sem nefndist Verkvík (les Verksvik) og það vantaði ekkert á að tilboðið var nógu glæsilegt, fleiri blaðsíður og litprentað með mynd af fórnarlambinu (blokkinni ) framaná. það var mætt á svæðið á tilteknum tíma, upp með stillansa og maður hélt að nú ætti að taka þetta með trompi, og þetta yrði sko flottasta blokk sem sést hefði. Verklýsingin var svo sem nógu fín og flott, en í stuttu máli sagt þá hefur annað eins fúsk ekki sést mér vitanlega, það sem átti að háþrýstiþvo og húða með sílan (e. sealant) það var eitthvað lauslega klórað með vírbustum og svo bara málningu slett á. Tréverksviðgerðirnar voru ekki skárri, handriðin úr úrgangstimbri sem er lakara flestu því efni sem ég hef keypt, og tel ég því að það hafi verið sérpantað, sökum þess að ekki hafi fengist nógu lélegt efni í landinu. Og ekki voru steypuviðgerðirnar miklu skárri, það var nefnilega engin undirvinna og bara hraðmúr (ég las utan á pokann) slett í. oft sá ég þetta gums detta úr og þá kom gamli enski hippinn og setti hálfþurrt efnið á sinnstað aftur, þar sem það neitaði síðan alfarið að tolla, fyrr en að hann (Hippinn) límdi steypuklumpinn í með silíkoni. Aðrar eins aðferðir hef ég aldrei séð, líklega af því að ég er ekki með meistarabréf, og ætla ég ekki að kalla mig fagmann á nokkru sviði, en mitt mottó er orðið að vera sjálfbjarga á sem flestum sviðum, og því færri iðnaðarhvolpa sem ég þarf að sjá, því betra, hvort sem þeir eru meistarar eður ei. Ekki vantaði það að ábyrgð var lofað á verkinu, 3.ár hvorki meira né minna. En í hvert skipti sem reynt var að hringja í Verksvik, þá var ekki svarað ef hringt var tvisvar úr sama númeri. Aldrei náðist í forsvarsmann fyrirtækisins sem var reyndar staðsett í íbúðarhúsi í Árbæ, og loks var ákveðið að ganga í húseigendafélagið, fyrir morð fjár, aðeins til þess að fá að heyra að þetta fyrirtæki væri rekið af atvinnusvikahrappi. Þá var spurt: Af hverju er hann ekki stoppaður af? Og svarið lét ekki á sér standa, jú sko hann er meistari.
Ef sá sem þetta les skilur ekki fullkomlega af hverju ég viðurkenni ekki iðnaðarmenn sem lögverndaða fagmenn, þá hlýtur sá hinn sami bara að vera meistari, þeir vita ekkert kunna ekkert, og skilja ekkert og hananú.