Í minningu Voffíar

 

Það er erfitt að skrifa minningargrein um þessa yndislegu litlu stúlku okkar, svo náin sem hún var okkur. Voffí lést hérna í fanginu á okkur mömmu, klukkan 3 mínútur í 12 á miðnætti þann 24 júlí 2004, eftir erfið veikindi.

Ég man þegar ég sótti þig upp á Hellisheiði í stórhríð vorið 2001, og þú sjarmeraðir pabba með einu augnatilliti. þú varst svo fríð að pabbi hafði aldrei séð fríðari voffa um sína daga. Þú varst ekki lengi að hertaka hjörtu okkar mömmu, og reyndar allra sem kynntust þér, því að það var ekki hægt, hversu lítið sem fólki var um hunda gefið, að líta fram hjá því hvað þú varst prúð og falleg. Og þegar mamma var búin að baða þig og greiða, hvað þú varst ánægð og stolt, enda leitun á jafn fallegum voffa. og þegar verslunarstjórinn móðgaði þig, þá þurfti mamma að taka völdin og draga pabba út úr búðinni áður en hann gerði allt vitlaust, og reyndar hefur hann ekki verslað þar síðan.

Það eru mörg tár sem falla við þessi skrif, en samt er minningin um þig eins dásamleg og hún getur mögulega orðið, því aldrei gerðir þú neitt af þér, og varst það mesta sólskinsbarn sem hægt var að hugsa sér. Það verður tómlegt að koma heim, og sjá ekki andlitið þitt í glugganum, þú varst svo blíð og geðgóð að það var mannbætandi að umgangast þig, og í gamni kallaði ég þig stundum geðlyfið mitt "Voffitrýn" því að það var ekki hægt að vera í fýlu nálægt þér.

Það er eitthvað meira en söknuður sem kemur upp þegar maður kveður þig Voffa mín, það er eins og þú hafir tekið með þér stóran part af manni sjálfum, því að tómarúmið er svo gapandi og stórt. Að þurfa að huga sér lífið án þín er nær óbærilegt, og aldrei kemur nokkur í þinn stað. En það eina sem ég get er að skrifa þessi fátæklegu kveðjuorð, og senda þér hlýjar óskir og þakklæti fyrir það sem þú gafst okkur á þínum 3 árum. Þú liggur hérna stutt frá þeim stað sem mamma og pabbi sofa, eða utan við svefnherbergisgluggann, í garðinum sem var ætlaður þér, og á hverju sumri ætlum við að gefa þér 3 falleg Hádegisblóm, eitt fyrir hvert ár sem þú áttir með okkur, helst bleik eða hvít eins og þú varst því að hvítari voffa hef ég ekki séð.

Þessi orð eru skrifuð af pabba fyrir hönd þeirra sem þú elskaðir og elskuðu þig

Pabbi, Mamma Hrefna, Beggi, Elva Sif , Kisa Mjöll og Muggur uppeldisbróðir

auk allra annarra vina þinna tvífættra og fjórfættra sem sakna þín svo mjög.

Hvíl í friði litla dúkkan okkar

Hérna megin við himnaríki er staður sem heitir regnbogabrúin. Þetta er fagur staður með græn grös á túni, fjöll og dali.Þegar besti vinur okkar deyr, eitthvert dýr sem var okkur mjög náið, fer það að Regnbogabrúnni. Þar er alltaf nóg af mat, vatni og sólskini, vinir okkar hlaupa um, leika sér og hafa það mjög gott

Öll dýrin sem voru að veik eða gömul, eru aftur orðin ung og hraust, eins og í minningu okkar, frá okkar bestu stundum. Þarna eru allir hamingjusamir og ánægðir með lífið.

Eitthvað skyggir þó á. Hvert og eitt þeirra saknar besta vinar síns, sem þótti vænt um þau og gætti þeirra þegar þau voru á jörðinni, en varð að vera eftir um  sinn. Hvern dag leika vinir okkar sér og hlaupa þar til dagurinn rennur upp.

 Snögglega hættir eitt þeirra að leika sér og lítur upp!

Hnusar út í  loftið!

Sperrir eyrun!

Augun athugul!

Líkaminn titrar af spenningi!

Hann hleypur hratt frá hópnum

Þýtur yfir grænan völlinn, hleypur hraðar og  hraðar

Það hefur verið beðið eftir þér!

Loksins þegar þú og besti vinur þinn hittist aftur tekur þú hann í fang þér, knúsar hann innilega og þið gleðjist yfir endurfundinum

Aldrei aftur aðskilin.

Gleðikossum rignir á andlit þitt, þú strýkur ástkært höfuð hans, þú lítur aftur í traustvekjandi augu vinar þíns, svo löngu farin þér frá, en aldrei úr hjarta þínu.Að lokum farið þið yfir regnbogabrúna....saman að eilífu.

Litla leiðið hennar elsku litlu Voffu okkar