Hver er Leifur?

Ég heiti fullu nafni Þórleifur Sigurður Ásgeirsson , og er fæddur í Reykjavík 11 desember 1958, og er þar af leiðandi Bogamaður, eins týpískur og þeir gerast er mér sagt. Ég ólst upp í Safamýri 34 mest af minni bernsku, og á þeim tíma var eyðimörk milli Álftamýrarinnar og Safamýrarinnar, í daglegu tali nefndur Móinn. Hinu megin við Miklubrautina, þar sem Kringlan er núna var önnur paradís, það er, gamli golfskálinn. Það húsnæði hýsti meðal annars skátafélag, sem meinaði mér inngöngu, á þeim forsendum að þetta félag væri ekki fyrir götustráka, sem var nafnið sem þeim sem nú eru greindir ofvirkir var gefið þá. einnig voru þar fundir hjá Vélhjólaklúbbnum Eldingu, sem hefur haft varanleg áhrif á mig, og ég hef reyndar sjaldan verið án þess að eiga mótorhjól, eitt eða fleiri. Ég hef starfað við ýmislegt sem ekki verður tíundað hér, en eitt hefur þó fylgt mér æði lengi, eða í um 20 ár, og það er tölvan. þegar ég var að byrja á þessu "fikti" í árdaga tölvuþróunarinnar, þegar  allir rifust um ágæti Sinclair Spectrum, Commodore 64 BBC-B, Acorn, Spectravideo, þá kviknaði bakterían. hún þróaðist svo með þróuninni sem hefur verið svo hröð að með ólíkindum má vera. Á sínum tíma var ég snupraður daglega fyrir að vera hangandi eins og fífl í þessu apparati sem aldrei yrði annað en leikfang, og vitnaði fólk þá gjarnan í ofantaldar vélar sem fæstar urðu atvinnutæki að neinu gagni. En ég skellti skollaeyrum við aðvörunum þessa ágæta fólks og hélt áfram að þróa mig í faginu, og þar kom að að Baldur heitinn Baldursson einn af stofnendum Tölvuskóla Suðurnesja, kom hlaupandi til mín, þar sem ég var að störfum hjá því ágæta fyrirtæki Tölvuvæðingu, sem nú er hætt, og spurði móður og másandi: Leifur ertu ekki búinn klukkan 5? Jú svaraði ég, og þú kannt Excel? spurði Baldur, já slatta svaraði ég, ókey kenndu fyrir mig klukkan 5, bless, og svo var hann horfinn. þannig byrjaði minn ferill sem tölvukennari hjá Tölvuskóla Suðurnesja, og þar er ég enn. Eigendur skólans keyptu svo síðar Tölvuskólann Þekkingu í Kópavogi, og hef ég kennt þar einnig. eins og ég hef sagt við Sigurð skólastjóra þá er engin leið fyrir hann að losna við mig, því að betri vinnustaður er vandfundinn. Mín vinnugleði liggur í því að gera hluti sem ég finn að skilja eitthvað eftir sig, gefa af mér og minni kunnáttu, í stuttu máli sagt, gefandi starf, sem skilur vonandi mikið eftir hjá þeim sem ég kenni. Aldrei hef ég unnið starf sem mér þykir eins ánægjulegt og kennslan, og er þar vafalaust að þakka frábæru skipulagi skólans, auk afbragðs námsefnis, því að bækur á þessu sviði geta auðveldlega orðið þurrar og leiðinlegar, og ekki síst því að "mórallinn" hjá skólunum er óviðjafnanlegur, og nú á dögum þegar þetta "fáránlega fikt mitt" er orðið brýn nauðsyn, þá hvet ég alla unga sem aldna til að afla sér þekkingar í þessum fræðum.

Með Kveðju

Leifur