Listamannalaun; Örorkubætur sökum heilaleysis?

List, ég þarf orðið að bursta í mér tennurnar eftir að ég segi þetta orð, slíkt er óbragðið af greininni. Árlega þá er úthlutað listamannalaunum til hinna og þessara sem maður þekkir ekki haus né sporð á. En flestir þegja yfir vankunnáttunni, það má sko ekki fréttast, að þeir séu "menningarheftir" ´.

En ég hinsvegar ætla hér með að úthrópa skilningsleysi mitt á list í flestum nútíma merkingum þess orðs. Einn leppurinn sem mér hefur sýnst vera áskrifandi að listamannalaunum er Sigurður Pálsson "skáld" flestir sem ég spyr eru á einu máli um að hann sé frábært skáld, en þegar ég inni fólk eftir því hvaða bókmenntaverk meistarans hafi nú myndað þessa skoðun einstaklingsins, þá er fátt um svör. Flestir sem ég þekki geta ekki einu sinni nefnt mér bók eftir manninn, hvað þá vitnað í þær. Ergó, þeir hafa ekki lesið stakt orð eftir snillinginn. Ég hins vegar hef böðlast í gegn um þrjár bækur eftir "Meistarann" og get nefnt þær allar auk fleiri bóka hans sem ég hef gluggað í, ekki þó lesið´, í von um að verða lostinn af snilldinni. Bókin Ljóð vega menn, er að mínu mati svona þolanleg froða en samt ekkert skárra en margt af því ungskáldabulli sem Sigurjón í Letri gaf út eftir "ungskáld" sem seldu svo afurðirnar á Mokka gersneyddir listamannalaunum. Yfir höfuð svona ljóðagerð, ef hún á að hafa einhvern tilgang, verður að vera hnitmiðuð og skýr, ekki eins og flest í þessum dúr sem ég hef lesið, handahófskenndur leikur með orð án nokkurrar getu til að koma neinu til skila í gegn um bullið. Þessi skoðun mín dreifist nokkuð jafnt á línu þeirra orðafroðusnakka sem á engan hátt eru færir um að lifa af list sinni, og nenna ekki að vinna, til þess eru þeir allt of góðir, en kjósa hinsvegar að þiggja ofur örorkubætur sem nefndar eru "listamannalaun" Í gamla daga voru þeir sem vildu kalla sig listamenn hæfir um að ná til fjöldans, og bækurnar þeirra seldust, sem sé eins og á öðrum markaði þá þurftu þeir að vinna sér markað og selja sín hugverk til að lifa. Enda sýnir reynslan það að þeir sem hæfir voru á þessu sviði lifa góðu lífi enn þann dag í dag, þó að þeir séu sjálfir löngu látnir. Ég á þó nokkrar ljóðabækur sem ég les oft mér til ánægju,en það er svo skrítið að í mínu ágæta bókasafni örlar ekki fyrir snillingnum sem að ofan er nefndur. Einar Ben....Já Steinn Steinarr............já, Dabbi Stebb..........Að sjálfsögðu, Káinn ............Ekki spurning..........Páll Ólafs............Jább.....Kristján Fjallaskáld.........ég held nú það. Einnig á ég bækur eftir fleiri fortíðarskáld, sem og nokkrar eftir núlifandi skáld, samt enga eftir Sigurð Páls. Gæti samt hafa keypt nokkrar á útsölum, og haft þær í plastinu sem svo mjög tíðkast meðal tímalausra aðdáenda skáldsins sem þekkja þó ekki haus né hala á verkum hans, hann er bara frábær.........Annað svona fyrirbæri sem ég hef reynt að ná sambandi við er Vigdís Grímsdóttir. Ég reyndi að böðlast í gegn um hverja bókina hennar eftir aðra, en allt á sama veg. ég gafst upp svona þegar ég var um það bil hálfnaður. Jæja ég verð víst að fá menninguna tuggna ofan í mig, hugsaði ég, og hugleiddi að kaupa miða á leiksýninguna Grandavegur 6. En einhvern veginn hummaði ég það fram af mér. og sé ekki eftir því. Þegar sjónvarpið sýndi meistaraverkið svo fyrir rest, þá reyndi ég að horfa á það og lofa snilldinni að hertaka sál mína, en einhvern veginn, þá bara gafst ég upp eftir 20 mínútur. Ég hef geymt þessa skömm innra með mér síðan. en nú er komið að því. Ég er búinn að uppgötva að nýju fötin keisarans eru bara plat, þessi menningarmötun er bara fyrirfram skipulagt plott, til að almenningur geti fundist hann vera púkalegur, af því að hann hefur ekki hinn æðri skilning sem þörf er á við lestur svona háleitra verka. En heiðruðu menningarleysur, trúið mér, Það er ekkert að ykkur nema að þið hafið heilbrigða skynsemi í ríkum mæli. Myndlistasýningar eru annað dæmi. Einhvern veginn getur Myndlistarskólinn útskrifað hverja listaspíruna af annari, þó að fæstir þeirra séu í stakk búnir til að skila þokkalega litaðri litabók frá sér. Ég er því miður ekki einn af þeim sem sé fegurð í klessuverkum á borð við flest, já ég segi og skrifa flest af því sem skreytir veggi landsmanna. Ég er ekki með þessu að setja út á þá listamenn sem gleðja augað með list sem er bæði dekoratív og kemur boðskapnum til skila með þokkalegum árangri á skiljanlegan hátt. eg fór eitt sinn á sýningu hjá Myndlistaskólanum og þá hét ég  því að ég skyldi geyma sýningarskrána til þess að vara mig á þessum "tilvonandi listaspírum" Eitt listaverkið er mér sérstaklega minnisstætt í fáránleika sínum. það var plastmappa, með hinum ýmsu áleggstegundum inni í svona vasaplastblöðum, og í snilldina var svo búið að sauma hin ýmsu spor sem sjálfvirkar saumavélar bjóða uppá. og verkin hétu eitthvað í þessa áttina: Rúllupylsa, Húllsaumur og svo næsta verk , Malakoffpylsa Zigzag saumur. einnig var þarna svona eitthvað sem minnti á þolanlegt málverk, en við nánari skoðun skartaði það steiktum kjúklingi í einu horninu. Þetta lið hlýtur að enda á listamannalaunum, því að enginn, hversu djúpur sem hann er vill hafa úldnandi álegg eða kjúkling upp á vegg. er ekki að verða nóg sagt? Eruð þið að láta hafa ykkur að fíflum með því að mæta á hverja klessuverkasýninguna á fætur annari, og þykjast falla í stafi, en innra með ykkur bærist samt smá snefill af efa, sem menningarþorstinn nær vafalaust að kæfa, áður en hann kemur upp um ykkur. Tónlistin er engan veginn undanskilin þessari gagnrýni. í gegn um tíðina hefur tónlist verið flokkuð sem "fín" og "ófín" tónlist. Fín tónlist, er eitthvað sem er sett upp af einhverjum snillingi í stórum óperuhúsum, gjarnan Háskólabíói. Þetta er oft einhver óskapnaður sem á lítið skylt við tónlist, og alfínast þykir að koma einhverjum verkfærum í spilið sem eru ekki skilgreind sem hljóðfæri. Dæmi: Tónverk fyrir eina sinfóníuhljómsveit, tvo loftbora og keðjusög, ópus 8 eftir Idiotsky. Ég er ekki að gagnrýna þá tónlist sem hefur verið snobbuð upp, en er þó mjög að mínu skapi, til dæmis eldri klassík og þó nokkrar óperur. Ég persónulega kann vel að meta Wagner, Verdi og Mozart, auk nokkurra annara í þessum geira. Þetta er allt melódísk tónlist sem orsakar ekki neinar sálarflækjur að gagni, Sumir hlusta hins vegar á Karlheinz Stockhausen og græða sennilega lítið nema hlustarverk á því. Er einhver skemmtun í því að koma sér upp massífum hausverk, með því að pína sig til að hlusta á eitthvað ´"fínt" sem maður er samt ekki innst inni að viðurkenna sem nokkuð annað en óþægilegan hávaða. Fæst af þessu fer sem betur fer í spilun og enn færra öðlast sess í tónlistarsögunni. Jafnvel skal hér með viðurkennt að eitt af mínum helstu goðum í tónlistinni sendi frá sér hávaða sem jafnvel ekki hörðustu aðdáendur gátu þolað. Frank vinur minn Zappa átti þetta til. En af hverju að nefna hann til sögunnar?  Jú hér erum við komin að kjarna málsins. Zappa gerði góðann slatta af svona tónlist, og fékk þar með að tilla tánum inn í snobbaðri hausa listaelítunnar, sem reyndar ekki hlustuðu á þetta nema þegar þeir fengu aðra snobbara í heimsókn. Zappa viðurkenndi síðar að hann hefði bara gert þetta af tómum prakkaraskap, og þetta væri hundleiðinlegt efni. Svona kann ég að meta, ef menn geta komið húmornum þannig frásér að listaelítann situr eftir með asnahausa, og það á svona eftirminnilegann hátt, þá HÚRRA fyrir því. Ég viðurkenni vel að ég á þessi "verk" Zappa en það er bara minni víðfrægu söfnunaráráttu að þakka. Ég á til dæmis nokkrar útgáfur af sama diskinum með Kinks, en umslögin eru mismunandi, þess vegna á ég þau. Þegar þetta er skrifað er ég að hlusta á Rúnar Júl, Mér líkar mússíkin hans vel, misjafnlega vel, en ég get ekki nefnt lag með honum sem ég vil alls ekki heyra. En ég get nefnt lög með mörgum öðrum sem ég vil alls ekki heyra, fyrir nokkurn mun. Og eiga þar stórir kappar lög innan um. Ég held að mér verði mest flökurt við að heyra Hotel California með Eagles, þetta er flott lag, sem því miður var ofspilað, sem og það ágæta lag Bohemian Rhapsodi með Queen. og þar af leiðandi er maður kominn með ofnæmi fyrir þeim. En mér er ekki í mun að rakka neinn niður, því að misjafn er smekkur manna, en í öllum bænum verið heiðarleg við smekkinn ykkar og ekki líma á hann eitthvað sem þið vitið innst inni að er engin snilld, heldur bara bull, en er ofsa fínt, af því að allir segja það. Hér á eftir fer smá brot af mínum listasmekk, og ég get staðið undir því öllu saman. Vert er að geta þess að þessi listi er engan veginn tæmandi, það mikið er til af frábærri tónlist hér á landi, sem og erlendis. Það hefði verið mikið mál að fara að rifja upp alla stórfenglegu dægurlagasöngvarana sem ríkisútvarpið blessaði mig með í æsku, reyndar svo hraustlega að ég elska þessa tónlist flestu meir í dag. Þetta er bara það sem flaug fyrst upp í hugann, þegar þetta er skrifað

Tónlist íslensk: KK. Bubbi. Rúnar Júl. Gylfi Ægis, Fræbbblarnir, Valgeir Guðjónsson, Todmobile, Jet Black Joe XIII, Friðrik Karlsson, Súkkat, og síðast en ekki síst MEGAS

Tónlist erlend: það sem ég hef safnað í gegn um tíðina er: Frank Zappa, Kinks Uppáhaldið mitt frá því ég var 6 ára, Jethro Tull, Steeleye Span, Deep Purple, Ramones, og svo annað sem ég hef látið mér vel líka: Grateful Dead, Yngvie Malmsteen, Nancy Sinatra, Black Sabbath, Motorhead, Gong, Iggy Pop, Lou Reed, og margt fleira sem ég kem ekki að hér .

Mínir uppáhalds myndlistamenn, eru meðal annars: Tolli, Áki Granz, Júlíus Samúelson, Kristinn Nicolai, og svo flestir svokallaðir póstkortamálarar.

Bókmenntasmekkurinn er svolítið "hversdagslegur", en mínir innlendu  "samtíma" höfundar eru: Einar Kárason, Hallgrímur Helgason, Þórbergur Þórðarson, Sumt af Laxness, Auður Haralds, svo nokkrir séu nefndir.

Og árlega les ég mér til heilsubótar, Góða dátann Svejk, Bör Börson, Bombi Bitt, og svo hefur Harry Potter einhvern veginn fundið sér leið inn í  sál mína. Þær bókmenntir sanna það að það er ekki þörf á listamannalaunum. Ef engum hefði líkað við skrif J.K.Rowlins þá væri hún örugglega enn á bótum. en hún selur sín hugverk, og þannig tel ég að þetta eigi að vera. Ef þú getur ekki unnið fyrir þér með því sem þú ert að gera, án styrks frá ríkinu, farðu þá að gera eitthvað annað í öllum bænum og hlífðu okkur við meira svona bulli, "listamaður góður" eða fullmelt: Ef þú selur ekki hugverkin , málverkin, eða tónlistina, þá þarftu að fara að vinna eitthvað annað.

því svo vitnað sé í Monty Python þá hef ég hef kannski ekki hundsvit á list, en ég veit hvað mér líkar.

Kveðja

Leifur

Heim