Af hverju myndavéladella?
Jæja er fíflið komið með enn eina delluna, hugsar fólk vafalaust núna. Af hverju í allsberum andskotanum að safna filmumyndavélum nú þegar allir eru að færa sig yfir í stafrænar vélar. Þessi drengur er ekki alveg með fulla tvo.
Allt í lagi, allt í lagi, ég skal verja mál mitt, eins og ég þarf víst alltaf að gera. Frá því að ég var pjakkur þá hafa myndavélar alltaf heillað mig mikið, en átti ekki sem strákur möguleika á að verða mér út um almennilega vél, heldur það eina sem ég náði í myndavélarlíkt, var Diana plastmyndavél úr Hagkaup við Miklatorg. sem í dag er algjör safngripur. Eftir að ég komst til vits og ára hef ég alltaf átt góðar myndavélar, og notað þær talsvert, en svo einn dag fóru gamlar myndavélar að sópast að mér úr öllum áttum, jafnvel þaðan sem síst var von, og það varð ekki aftur snúið, þessi áhugi tók mig heljartökum, svo alvarlega að safnið mitt núna er "mjög stórt". Í framhaldi af því að þessari söfnun var hrundið af stað með látum, þá kom grúskarinn up í mér, og er nú aðal málið hjá mér að heimsækja sem flesta ljósmyndara, lífs og liðna og skrá myndavélasögu þeirra. Það hafa margir fallegir gripir farið forgörðum bara hér heima, að maður tali nú ekki um erlendis. Samt megum við Íslendingar teljast heppnir, hvað hefur varðveist af ljósmyndum í gegn um tíðina, þrátt fyrir að við höfum verið með þeim seinni til að taka tæknina í þjónustu okkar. Myndavélin er nefnilega að mínu mati eitt merkilegasta verkfæri sem upp hefur verið fundið. Fyrir tíma myndavélarinnar, höfðu misvitrir listamenn reynt að skrá söguna, hver með sínu nefi. Og hvað á ég við með því? Ójú, listamenn eru góðra gjalda verðir svo langt sem það nær,eða sú er skoðun mín, en sem skrásetjarar samtíðarinnar eru þeir ekki svo mjög ábyggileg uppspretta, margir hverjir. Setjum svo að við skoðum nú nokkra snillinga sögunnar, þá hefur alvarlegt offituvandamál verið í gangi þegar Raphael var uppi, þeir sem ætluðu að skrá söguna eftir listmálurum, myndu sennilega þurfa allnokkuð að spá í hvernig sumt leit út, ef þeir skoðuðu kúbismamyndir eftir Picasso, og ef myndir Hieronymus Bosch eða Salvador Dali kæmu inn á borð hjá þeim, án nokkurra útskýringa, þá væri 19-20 öldin sennilega stór ráðgáta, sen enginn botn fengist í. Ekki er meira á ritöfundum og skáldum að græða sögulega séð, Ef maður ætti að meta söguna út frá bullinu í Shakespeare, þá myndi maður hiklaust telja að á þeim tíma hafi allir verið illilega málhaltir, og sú augljósa staðreynd að fagurbókmenntir eru eins og lýsingin gefur til kynna hannaðar til að fegra samtímann, þá eru þær síst til þess fallnar að byggja á. Sumir myndu nú segja að með þessum skrifum þá væri ég að gefa stórann skít í listasöguna. Það er ekki allskostar rétt. Að vísu er mín reynsla af samskiptum við listamenn æði misjöfn, og eru flest þeirra listamanna sem ég hef haft samskipti við mestu hrokagikkir. En undantekningar er á þeirri reglu, eins og Tolli vinur minn sem er bæði ljúfur og skemmtilegur viðræðu, auk þess að geta spjallað um alla heima og geima. svo eru nokkrir aðrir sem ég vil ekki nefna sem eru þannig innréttaðir að það rignir svo rækilega upp í nasirnar á þeim, og nebbinn nær ekki réttri hæð fyrr en hann er nuddaður með tékka eða peningabúnti. Þannig að ég sé ekkert því til fyrirstöðu að einhver orðafroðusnakkurinn skrifi Hamlet returns eða Tremmi á Jónsmessumorgni. og vafalaust getur einhver klessumálarinn stælt restina af myndlistasögunni, eða hvað hefur sýnt sig í undanförnum fölsunarmálum? Jæja og hvað kemur þetta myndavélunum mínum við spyrð þú vafalaust núna? Jú það er kjarni málsins að Myndavélin er eina verkfærið sem skrásetur umhverfi sitt á óvéfengjanlegan hátt, svo að ekki verður hægt að lesa eitthvað annað út úr því en filman sér. Víst hafa listamenn fundið sér það til dundurs að misnota verkfæri þetta sem og flest önnur sem áður nýttust til gagnlegri hluta, en það er önnur saga. Ef viðburðir 20 aldarinnar hefðu ekki verið festir á filmu, er ógerlegt að ímynda sé hvað komandi kynslóðir fengju vitneskju um varðandi þessa mestu tæknibyltingaröld sem liðið hefur, og væri fróðlegt að reyna að lesa úr listasögu 20 aldar, einhvern snefil af vitrænni skrásetningu, ef á heildina er litið. Tökum sem dæmi mann eftir 200 ár sem hefði engar ljósmyndir og fengi í hendurnar listaverkabók eftir Erró, sá yrði nokkuð vel ringlaður, að ég tala nú ekki um ef hann fengi í hendurnar eitthvert skáldverk til að hræra saman við myndlistina. Nei og aftur nei, rétt er rétt og bull er bull, eins og Ljón Norðursins mælti af mikilli speki. Það er ekkert circa til, bara akkúrat. Mitt dálæti á myndavélum er samt dálítið margslungnara en það að þær getta toppað hvaða listaspíru sem er, það sem mér finnst merkilegast af öllu er þróunin, sem hefur reyndar verið hægari en í flestum öðrum tækninýjungum. Það eru nú þegar þetta er skrifað rétt rúm sjö ár síðan að stafrænar myndavélar fóra að verða almenningseign, og þær eru þeim ósköpum gæddar, að hver sem er nánast getur falsað hvaða mynd sem hann nær í á því formi, án teljandi erfiðleika. Þetta var stórmál þegar filman var og hét. Af og til urðu svokallaðar tvítökur, þar sem sami filmubúturinn var notaður tvisvar, það er mynd tekin ofan í mynd, en það var oftar óvart en viljandi gert. og í stækkuninni mátti gera takmörkuð bellibrögð, sem ekki voru á færi nema kunnáttumanna, sem sjaldnast lögðu sig niður við þessháttar fikt. Stolt ljósmyndarans hefur miklu heldur fólgist í því að festa samtíðina varanlega á filmu, sem og vekja athygli manna á umhverfinu og fegurðinni sem engin listaspíra nær að lýsa betur en að augað nær að upplifa það sjálft. nú þegar flestir eru við það að henda "gömlu" filmu myndavélunum sínum, þá ætla ég að safna saman eins miklu af þessum stórkostlegu og sannsöglu verkfærum, því að nóg af þeim fer víst á haugana eftir mislanga viðkomu í geymslum.
Hugsum okkur bara ef ekki hefði verið búið að finna upp myndavélina þegar að heimsstyrjaldirnar geisuðu, eða ef ekki væru til þessar gömlu kvikmyndir frá því um og eftir aldamót. og öll þau meistaraverk kvikmyndasögunnar sem aldrei hefðu fengið líf nema fyrir tilvist filmunnar, fyrir utan það að nú eru til myndir yfirleitt af fjölskyldunni 5-6 ættliði aftur í tímann og orðið illgerlegt fyrir afa dagsins í dag að ljúga sögum að barnabörnunum, því að þau myndu segja: Er ekki til mynd af þessu?